Kyrrðarjóga

Hornsteinar Kyrrðarjóga eru djúpslökun og hugleiðsla, öndunaræfingar og tónheilun. Við notumst mikið við liggjandi leidda hugleiðslu sem heitir jóga nidra og er ævaforn hugleiðslutækni. Þú þarft bara að finna þér þægilegan öruggan stað og við leiðum þig inn í töfraheim Kyrrðarjóga.

Mikilvægt er að þú gefir þér andrými og svigrúm til að ná að sleppa tökum og finna innri kyrrð og ró.

 

 
 

Upphaf Kyrrðarjóga

"Do not go where the path may lead. Go instead where there is no path and leave a trail” – Ralph Waldo Emerson

Við erum tveir hjúkrunarfræðingar og jógakennarar sem fórum af stað með hugsjónaverkefni fyrir starfsfólk Landspítalans árið 2017. Okkar einlægi ásetningur var að hlúa að okkar samstarfsfólki með aðferðum hugleiðslu og djúpslökunar sem við höfðum tileinkað okkur í gegnum okkar uppbyggingarferðalag.

Við hófum þessa vegferð í sjálfboðaliðavinnu og buðum heilbrigðisstarfsfólki að mæta í slökun á vinnustaðnum á vinnutíma og í framhaldinu varð til konseptið "Kyrrðarjóga". Í dag er Kyrrðarjóga aðgengilegt úrræði fyrir starfsfólk aðgerðasviðs spítalans sem og fleiri deilda.

Okkar einlæga ósk er sú að með tíð og tíma verði hugleiðsla og djúpslökun aðgengilegur valmöguleiki fyrir allt starfsfólk sem hefur áhuga á að upplifa áreynslulausa streitulosun og núllstillingu. Með Kyrrðarjóga erum við vonandi að svara kalli þeirra sem upplifa mikið álag og streitu í sínu starfi sem og allra þeirra sem einfaldlega vilja fá smá andrými, kyrrð og ró.

Ef við náum að skilja eftir slóð erum við á réttri heilsueflandi leið. Farvegurinn myndast smám saman.

Sjá umfjöllun um Kyrrðarjóga í Landanum á RÚV hér

 

 
 

Hugleiðsla

Hugleiðsla snýst um að kyrra öldurót hugans og að vera til staðar fyrir líðandi stund. Hugurinn er margslunginn og öflugur og mörgum reynist erfitt að hafa stjórn á hugsunum sínum.  Allt er undir hugarástandi okkar komið og ef okkur tekst að kyrra huga okkar eru meiri líkur á því að njóta augnabliksins og að finna innri kyrrð og ró.

Rannsóknir sýna að regluleg ástundun hefur jákvæðan heilsufarslegan ávinning í för með sér.  Sem dæmi má nefna getur hugleiðsla hjálpað einstaklingum að draga úr streitu og kvíða, bætt svefn og aukið þar af leiðandi lífsgæðin. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að með því að stunda hugleiðslu reglulega þá eykst samkennd og sjálfstraust einstaklingsins og margir finna fyrir aukinni orku og jafnvægi.  Hugarró getur því verið lykillinn að heilsu og hamingju.

Það eru ekki forréttindi fárra að stunda hugleiðslu, hún er aðgengileg öllum.  Hvar og hvenær einstaklingur iðkar hugleiðslu er algjörlega undir honum komið og mikilvægast er að hver og einn finni sína leið. Hugleiðslu er meðal annars hægt að iðka sitjandi, standandi, gangandi og liggjandi. Ef einstaklingur hefur áhuga á að byrja að stunda hugleiðslu er mjög gott að fá leiðsögn og vera leiddur áfram inní þennan töfraheim.

Hér kemur Kyrrðarjóga sterkt inn þar sem það er aðgengilegt form hugleiðslu sem allir geta ástundað.

Möguleikarnir eru fjölmargir, finndu þína leið og byrjaðu núna!

Vertu hjartanlega velkomin í Kyrrðarjóga og gangi þér vel á þinni vegferð.

 

 
 

Jóga Nidra

Jóga nidra er sú hugleiðslutækni sem við notum í KYRRÐARJÓGA og hefur verið iðkuð af jógum í gegnum tíðina. Oft er talað um jóga nidra sem jógískan svefn eða “sleep based meditation” því aðferðin snýst um að ná djúpu slökunarástandi þar sem iðkandinn fer inní rýmið á milli svefns og vöku - Zero Stress Zone.  Kyrrðarjóga er endurnærandi og djúpslakandi hugleiðsluferðalag.

Með mismunandi æfingum er iðkandinn leiddur dýpra og dýpra ofan í kyrrð og þögn. Öndunar- og líkamsæfingar virkja slakandi hluta taugakerfisins og smám saman hægist á innri taktinum, blóðþrýstingur og púls lækkar og líkamlegu slökunarástandi er náð. Með sjónsköpun (visualization) og núvitundaræfingum (mindfulness) er verið að stýra huga þínum í ákveðna átt og þá nærðu að hægja á endurteknum hugsunum. Einnig gagnast þessar æfingar til að vera áhorfandi að hugsunum sínum. Smám saman lærir iðkandinn að stjórna því hvernig hann bregst við því sem kemur upp í hugann. Hugsanir og tilfinningar koma og fara og við þurfum að læra að sleppa á þeim tökum svo að þær festist ekki og finni sér varanlega búsetu innra með okkur. Jóga nidra snýst um að koma jafnvægi á líkama og huga. Þú losar um innri sem ytri spennu og kemur endurnærður tilbaka úr hugleiðsluferðalaginu.

Iðkandinn fer í innra ferðalag þar sem markmiðið er að ná aftengingu við hugann og sleppa tökum á því sem ekki gagnast honum lengur.

 

 
 

Öndun

Í Kyrrðarjóga leggjum við mikla áherslu á öndun/andardráttinn og leiðum fólk í gegnum einfaldar öndunaræfingar sem hægt er að grípa til hvar og hvenær sem er. Öndun er stór hluti af hugleiðsluferðalaginu sem við leiðum þig í gegnu.  Það að beina athyglinni að önduninni er öflug leið til að kyrra hugann og að vera í núinu sbr. þessa setningu:

"CONSCIOUS BREATHING IS YOUR ANCHOR TO THE PRESENT MOMENT". 

Með réttri öndunartækni er hægt að hafa áhrif á taugakerfið okkar og líðan. Djúpöndun hefur bein áhrif á slakandi hluta taugakerfisins (svokallað parasympatiska kerfið) sem er bremsan okkar. Með því að anda hægt og rólega, fylla lungun og lengja útöndun þá ertu að sleppa bensíngjöfinni, taka í taumana og hægja á kerfinu. Blóðþrýstingur og púls getur lækkað og þannig upplifir þú meiri slökun, innri kyrrð og ró.

Það eru í raun margar ástæður fyrir því að læra öndunaræfingar og að tileinka sér djúpöndun. Í hvert sinn sem hugur þinn reikar eða fer á flakk þá geturðu beint meðvitaðri athygli þinni að andardrættinum og með því ertu að æfa þig í að kyrra hugann og ná betri stjórn á honum. Það getur verið krefjandi að hægja á endurteknum hugsunum og þá er gott að hafa einhver verkfæri til að ná tökum á þeim og sérstaklega í aðstæðum þar sem þú vilt ná kyrrð og ró (t.d. fyrir svefn og ef þú vaknar um miðja nótt og átt erfitt með að sofna aftur).

Hægt er að notast við Kyrrðarjóga-hugleiðslur einmitt í slíkum aðstæðum.

 

 
 

Tónheilun

Gong

Í Kyrrðarjóga notum við alltaf Gong til að hjálpa ykkur að komast dýpra í slökun. Þetta magnaða hljóðfæri snertir við einstaklingnum á djúpstæðan og umbreytandi hátt. Hljóð Gongsins skapar djúpa slökun, hreinsar hugann og undirmeðvitundina. Í dag er Gongið gjarnan notað sem meðferðarform í heilun og djúpslökun. Víbrandi tónar hljóðfærisins fá þig til að slaka á og sleppa tökum á öllu því sem ekki gagnast þér þá stundina. Gong tónheilun er þess vegna mjög góð streitulosun og hefur róandi og uppbyggileg áhrif á taugakerfið. Tónheilun er því mikilvægur hluti af ferðalaginu inn í kyrrðina. 

Margir lýsa upplifun sinni af Gong slökun sem heilun frá náttúrunnar hendi. Okkar eigin upplifun er sú að víbrandi tónar Gongsins spili á allt litróf lífsorkunnar.  Margir skynjar orku Gongsins og tóna þess í hverri einustu frumu í líkamanum. 

Kennarinn okkar hún Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir "Gongmeistari Íslands" lýsti tónheiluninni á svo einstakan hátt: Gongið hjálpar þér að tengjast frumástandi vitundarinnar". Mögnuð orð hjá henni Arnbjörgu.

meðferðar-harpa

Frá örófi alda hefur hljóð verið notað til heilunar og heilsubóta. Margir upplifa hljóð og tónlist sem slakandi, róandi og uppbyggjandi fyrir taugakerfið.  Í dag er tónheilun notuð til að hlúa að einstaklingum og til eru margar tegundir af hljóðum sem ýta undir slökunarviðbragðið og auka vellíðan.  Hljóð getur haft meðferðarlegt gildi.

Í Kyrrðarjóga eru ýmis tónheilunar hljóðfæri notuð og má þar helst nefna gong, hörpu og kristalsskálar.

Laufey lærði að spila á svokallaða meðferðar-hörpu (Therapy Harp) sem hún notar reglulega í Kyrrðarjóga. Hún lærði af Shelly Ann Reif sem kemur reglulega til Íslands og leiðir vinnustofur og kennir tónheilun. 

Fyrir áhugasama þá er hér slóðin á vefsíðuna hennar: www.shellyreef.com

 
 
Frábær streitulosun. Alveg magnað hvað manni líður betur á eftir. Algjör gæðastund.

Laufey_harpa.jpg
#block-f315054b093d0024a197